Saga Kjötsmiðjunnar
Kjötsmiðjan var stofnuð þann 12.mars 1990. Forsaga fyrirtækisins er sú að þeir feðgar Gunnar Snorrason og Sigurður V. Gunnarsson ráku matvöruverslun í Hólagarði frá árinu 1975-1990. Öll þau 15 ár sem þeir feðgar ráku verslunina var lögð mikil áhersla á gott kjötúrval og var metnaðurinn mikill á því sviði.
Árið 1984 keyptu þeir feðgar kjötvinnsluna Kjöt og Álegg sem var til húsa að Smiðjuvegi 24 í Kópavogi. Var ráðist í tækjakaup til að sinna veitingahúsum og hótelum en þá var lítt þekkt að veitingamenn gætu keypt tilbúnar steikur í þeirri stærð sem passaði fyrir þá. Einnig var boðið upp á dreifingu daglega ef menn óskuðu. Þetta var nýlunda þar sem einungis var boðið upp á heila skrokka og jafnvel eingöngu frosið kjöt.
Árið 1996 var Kjötsmiðjan flutt upp í Fossháls 27-29 en í því húsi höfðu þeir feðgar rekið sælgætisgerðina Ópal um árabil. Var sú stækkun kærkomin þar sem húsnæðið á Smiðjuveginum var orðið of lítið.